Tilkynning til umsækjanda og umboðsmanna varðandi rannsókn umsókna um einkaleyfi

28/03/2014

Ákveðið hefur verið að gera breytingar á rannsókn umsókna sem sendar eru til dönsku einkaleyfastofunnar, DKPTO. Í breytingunum felst að leitir og rannsóknir verða umfangsmeiri og ættu því að skila enn betri niðurstöðum.  Leitir munu taka til allra krafna, þó með áherslu á sjálfstæðar kröfur og verður leit haldið áfram þó fram komi gögn sem mæla gegn nýnæmi eða frumleikastigi. Upplýsingar um það sem telst þekkt verða því aðgengilegar umsækjanda fyrir umsóknina í heild sinni, en engin breyting verður að öðru leyti á leitarskýrslu. Athugasemdir rannsakenda munu verða settar fram með almennari hætti en áður í fyrsta bréfi og umsækjanda þannig veittur meiri sveigjanleiki og fleiri valkostir til að bregðast við athugasemdunum. Breytingar verða þó ávallt að vera efnislega í samræmi við umsóknina eins og hún var lögð inn. Ítarleg rannsókn verður framkvæmd að breytingum loknum og niðurstöður settar fram með þeim hætti sem verið hefur. Ef engar athugasemdir eru gerðar við einkaleyfishæfi fær umsækjandi upplýsingar um með hvaða hætti umsóknin verður samþykkt. 

Þá verður unnt að óska eftir flýtimeðferð rannsóknar og ennfremur boðið upp á að umsækjendur geti rætt við rannsakanda símleiðis. Í einhverjum tilfellum kann rannsakandi að hafa frumkvæði að slíkum samskiptum. 
 
Ofangreindar breytingar munu taka gildi 1. apríl nk. 
 
Nánari upplýsingar um breytingarnar veitir starfsfólk einkaleyfasviðs.