EFTA - EES

European Free Trade Association, EFTA

Fríverslunarsamtök Evrópu
European Free Trade Association, EFTA

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA - European Free Trade Association) voru stofnuð árið 1960 með svokölluðum Stokkhólmssamningi. Stofnaðilar samningsins voru Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Svíþjóð og Sviss, en síðar gerðust Finnland, Ísland og Lichtenstein aðilar. Í dag eru EFTA-ríkin aðeins fjögur, Ísland, Lichtenstein, Noregur og Sviss. Hin ríkin eru aðilar að Evrópusambandinu (ESB) sem EFTA-ríkin hafa með margvíslegum hætti samvinnu við. Nýr stofnsamningur EFTA, Vaduz samningurinn tók gildi 1. júní 2002. Með samningnum eru innleidd ákvæði um frjálsa för launþega milli aðildarríkjanna í áföngum. Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna hafa samkvæmt samningnum rétt til komu, atvinnu og búsetu í öðrum aðildarríkjum samningsins, rétt til að bjóða fram þjónustu sína í tiltekinn tíma og rétt til jafnræðis. Með samningnum er almannatryggingakerfi aðildarríkjanna samræmt og einnig er kveðið á um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og hæfi. EFTA-ríkin skuldbinda sig samkvæmt samningnum til að veita hvert öðru nægilega og árangursríka vernd hugverkaréttinda. Þau mega ekki veita ríkisborgurum hvers annars lakari vernd á hugverkaréttindum en þau veita eigin ríkisborgurum(landskjarameðferð), og þeim verður ekki veitt lakari vernd en veitt eru ríkisborgurum þriðju ríkja(bestukjarameðferð).

Á milli EFTA-ríkjanna ríkir gagnkvæm viðurkenning á skýrslum, vottorðum, leyfum, samræmismerkjum og yfirlýsingum framleiðenda um samræmingu. Í samningnum er kveðið á um staðfesturétt, þ.e. rétt til þess að stofna, eignast og reka fyrirtæki innan aðildarríkjanna. Innan ramma samningsins og með fyrirvara við ákvæði hans eru engar takmarkanir á rétti til að stofna fyrirtæki eða félög í samræmi við lög viðkomandi aðildarríkis. Samningurinn mælir einnig fyrir um að engar takmarkanir skuli vera á fjármagnsflutningum sem tengjast stofnun félags eða fyrirtækis aðildarríkis á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.

EFTA - EES

EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994 með lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Í 2. mgr. 65. EES-samningsins er vísað til bókunar 28 og XVII. viðauka sem innihalda sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi hugverk og eignarréttindi á sviði iðnaðar.

Samningurinn er fríverslunar-samningur á milli EFTA-ríkjanna (Íslands, Noregs og Liechtenstein) og Evrópusambandsins. Markmiðið með samningnum er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði. Með samningnum öðlast EFTA-ríkin innan EES aðild að innri markaði ESB. Saman mynda aðildarríki ESB og EFTA ríkin þrjú eitt markaðssvæði þar sem sömu leikreglur eru við lýði, auk frelsis í fjármagns-, vöru-, þjónustu- og fólksflutningum.

Evrópusambandið sér um að viðhalda EES-samningnum fyrir ESB ríkin en Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) gegna því hlutverki fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein. Oft er talað um tveggja stoða kerfi í þessu samhengi því EFTA-ríkin stofnuðu, á grundvelli EES-samningsins, sambærilegar stofnanir og ESB byggir á til að sinna samningnum. Á milli stoðanna tveggja var svo stofnaður sameiginlegur vettvangur þar sem samningsaðilar frá ESB og EFTA mætast til að taka ákvarðanir um EES-samninginn. Með því er átt við að teknar eru ákvarðanir á hinum sameiginlega vettvangi um það hvaða ESB-gerðir þarf að taka upp í EES-samninginn, þ.e.a.s. hvaða nýju lagagerðir ESB falla undir samninginn og nauðsynlegt að EFTA ríkin innan EES innleiði í sína löggjöf. Samningurinn er í stöðugri þróun (nýjar gerðir bætast við) sem þýðir að íslensk löggjöf verður stöðugt fyrir beinum áhrifum af tilvist hans.

EES-samningurinn felur ekki í sér atkvæðisrétt fyrir EFTA-ríkin innan EES varðandi þá löggjöf sem ESB setur um innri markaðinn og ríkin þrjú þurfa að innleiða. EFTA-ríkin innan EES hafa aftur á móti formlegan rétt til aðkomu að mótun löggjafar á upphafsstigum hennar, þ.e.a.s. á svokölluðu for- og vinnslustigi. Þar gegnir starfsfólk sendiráðsins í Brussel því hlutverki að koma athugasemdum um hagsmuni Íslands til ESB á framfæri, ýmist í gegnum vinnuhópa EFTA eða með þátttöku á sérfræðingafundum ESB.

Heimasíða EFTA (The European Free Trade Association)