EPO

European Patent Office, EPO

Evrópska einkaleyfastofan - European Patent Office, EPO
Evrópski einkaleyfasamningurinn - European Patent Convention, EPC

Fyrstu skref í átt að samstarfi á sviði einkaleyfa innan Evrópu voru tekin í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar með stofnun International Patent Institute árið 1947, með aðild Benelux-landanna og Frakklands. Frekara samstarf frá þeim tíma leiddi til undirritunar Evrópska einkaleyfasamningsins (EPC) í München þann 5. október 1973, sem formlega tók gildi 7. október 1977.

Megintilgangur EPC er að efla samstarf Evrópuríkja varðandi vernd uppfinninga. Framkvæmd hans lýtur að sameiginlegri málsmeðferð aðildarríkja hans við móttöku, rannsókn og veitingu einkaleyfa, þar sem unnt er með einni umsókn í einhverju þeirra að öðlast einkaleyfi í flestum ríkjum Evrópu.

Með samningnum var Evrópska einkaleyfastofnunin (European Patent Organisation) sett á fót. Stofnunin hefur sjálfstætt framkvæmdavald og sjálfstæðan fjárhag. Stofnunin hefur aðsetur í München og eru opinber tungumál hennar enska, franska og þýska. Veiting evrópskra einkaleyfa er í höndum Evrópsku einkaleyfastofunnar (European Patent Office / EPO). EPO skrifstofan tók til starfa þann 1. nóvember 1977 og hefur aðalstarfsstöð í München. Yfirstjórn EPO er í höndum framkvæmdaráðs, sem samanstendur af tveimur fulltrúum frá hverju samningsríki. Framkvæmdaráðið hefur meginumsjón með samningnum og heimild til breytinga á honum og tilteknum reglugerðum á grundvelli hans. Ráðið kemur saman fjórum sinnum á ári og á fundum þess eiga m.a. fulltrúar Alþjóðahugverkaréttarstofnunarinnar, WIPO, áheyrnaraðild.

Gagngerar breytingar voru gerðar á Evrópska einkaleyfasamningnum árið 2000, sem nefndar hafa verið EPC 2000. Breytingarnar tóku gildi þann 13. desember 2007 í öllum aðildarríkjum. Markmiðið var m.a. að nútímavæða stjórnsýslu stofnunarinnar og gera hana sveigjanlegri og aðgengilegri en áður. Málsmeðferðin var einfölduð til muna en ein helsta breytingin lýtur að því einkaleyfishafa er eftir veitingu Evrópueinkaleyfis veitt heimild til að óska eftir takmörkun á verndarsviði þess hjá EPO, sem gildi tekur í öllum aðildarríkjum samningsins. Slík heimild hefur verið færð inn í lög um einkaleyfi nr. 17/1991 í grein 40.a og 40.b og gildir hún frá því tilkynning um breytingu hefur verið birt.

Ísland gerðist aðili að samningnum þann 1. nóvember 2004, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. september 2004. Formleg ákvörðun um aðild var tekin af ríkisstjórninni í nóvember 2002, en ekki þurfti að sækja um aðild sérstaklega þar sem Íslandi var boðin seta á ráðstefnunni í München árið 1973 og hafði því aðildarheimild. Aðildarríki samningsins eru nú 38 talsins.

Heimasíða EPO (European Patent Office)