EQE (European Qualification Examination)

Stuðningur við EQE - próf til réttinda sem European Patent Attorney

Til þess að mega reka mál fyrir Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) eða meðhöndla staðfestingu evrópskra einkaleyfa í aðildarríkjum þess þurfa aðilar að hafa lokið sérstöku réttindaprófi (e. European Qualification Examination (EQE) eða að hafa öðlast til þess svonefnd „grandfather“-réttindi, sem veitt eru þeim sem umfangsmikla reynslu hafa á sviði einkaleyfa á þeim tíma þegar ríki gerast aðilar að Evrópska einkaleyfasamningnum (EPC).

EQE-prófið er ætlað þeim sem hafa sérþekkingu á sviði efnafræði eða rafmagns- og aflfræði og  samanstendur af fimm hlutaprófum. Miðað er við að það sé tekið á þremur árum, fyrst undirbúningspróf (e. pre-examination) og síðar fjórskipt aðalpróf (e. main examination) á næstu tveimur árum þar á eftir. Nánari upplýsingar um uppbyggingu prófsins, inntökuskilyrði, tölfræði o.fl. má finna hér.

Til þess að stuðla að fjölgun sérfræðinga á þessu sviði, einkum í þeim ríkjum sem hafa færri en fimm EQE-menntaða einkaleyfasérfræðinga, ýtti EPO úr vör árið 2012 sérstöku átaksverkefni til þriggja ára til stuðnings þeim sem óskuðu eftir að þreyta prófið. Stuðningurinn er einkum í formi námskeiða (m.a. tungumálanámskeiða), vinnustofa, verklegra æfinga og möguleika til umræðna við sérfræðinga á sviðinu auk sértæks leiðbeinanda fyrir hvern og einn. Sum námskeið/umræðutíma er einnig hægt að taka í fjarnámi. Þá er jafnframt veittur fjárstuðningur við undirbúning og til töku prófa, þ.á m. ferðakostnaður o.fl.

Nánari upplýsingar um átaksverkefnið má finna í eftirtöldum skjölum (á ensku):

 

Frestur til að skila inn umsóknum til Einkaleyfastofunnar vegna stuðningsáætlunarinnar (CSP) árið 2017 er til 12. maí 2017 og skal senda umsóknir á netfangið postur@els.is.

Samkvæmt nýjum reglum (Rule 28 IPREE) þurfa áhugasamir að skrá upplýsingar um menntun og starfsreynslu á sérstakt vefsvæði hjá EPO fyrir  31. mars 2017. Sjá nánar hér.