Ný útgáfa af ePCT fyrir umsækjendur tekin í notkun

20/01/2012

Í 1. tbl. PCT Newsletter sem gefið er út af WIPO kemur fram að ný útgáfa af ePCT hafi verið tekin í notkun.

ePCT er tilraunaverkefni sem WIPO stendur að fyrir umsækjendur, sem gerir þeim kleift að skoða umsóknir sínar með rafrænum hætti á meðan þær eru í vinnslu hjá stofnuninni. Þessi valmöguleiki hefur verið til staðar um nokkra hríð, en með þessari útgáfu (2.3) er öllum notendum PCT kerfisins gert kleift að tengjast þjónustunni. Aðgangur er auk þess veittur að öllum alþjóðlegum umsóknum sem lagðar voru inn eftir 1. janúar 2009, hvort sem þær bárust WIPO rafrænt eða á pappír.

Rafrænar umsóknir má skoða með notkun rafrænna skilríkja, en til að skoða umsóknir sem lagðar voru inn á pappír verður umsækjandi að sanna rétt sinn til viðkomandi umsóknar með því að svara tilteknum spurningum og mun WIPO í kjölfar þess veita viðkomandi rafrænan aðgang.

Unnt er að prófa ePCT hér, en slóð á ePCT fyrir virkar umsóknir má nálgast hér.

Nánari upplýsingar um frekari viðbætur sem fylgja þessari útgáfu og það sem áætlað er að bæta við kerfið í framtíðinni, s.s. möguleika á að leggja inn leiðréttingar o.fl. rafrænt, má nálgast í PCT Newsletter, Janúar 2012, bls. 1-2 (hér). Allar nánari upplýsingar um PCT kerfið má nálgast á vefsíðu WIPO, www.wipo.int