Samstarf Evrópsku einkaleyfastofunnar og Google ryður hindrunum úr vegi

03/03/2012

Evrópska einkaleyfastofan (EPO) hefur tekið í notkun nýja vélþýðingaþjónustu sem nefnist „Patent translate“ á heimasíðu sinni.  Þjónustan nýtir vélþýðingatækni sem Google translate hefur þróað og gerir notendum kleift að þýða af og á ensku, frönsku, þýsku, spænsku , ítölsku, portúgölsku og sænsku og þar með að þýða um 90% allra útgefinna einkaleyfa í Evrópu.  Í lok árs 2014 mun þjónustan ná til einkaleyfa á öllum tungumálum aðildarríkja Evrópsku einkaleyfastofunnar, auk kínversku, japönsku, kóreönsku og rússnesku.

Þjónustan muni auðvelda uppfinningamönnum að finna einkaleyfi á sínu tæknisviði og þýða þau á eigin tungumál.  Þetta mun einnig auðvelda samstarf um samræmt Evrópusambands-einkaleyfi þar sem snar þáttur í því samstarfi eru þýðingakröfur.  Samkvæmt forstjóra EPO, Benoît Battistelli, mun nýja þjónustan undirstrika stöðu EPO sem stærsta veitanda ókeypis upplýsinga um einkaleyfi auk þess að styðja við sameiginleg markmið EPO og Google sem er að auka aðgengi að tæknilegum upplýsingum í einkaleyfum, óháð tungumáli notandans.

Samstarf Google og EPO sem hófst fyrir um ári síðan hefur þegar leitt til mikilla úrbóta á vélþýðingum einkaleyfa.  EPO lét Google í té nokkur hundruð þúsund einkaleyfaskjöl sem notuð voru til að þjálfa þýðingavélina fyrir þau sjö tungumál sem búið er að þróa.  Á árinu 2013 verður tungumálunum dönsku, hollensku, finnsku, grísku, ungversku og norsku bætt við en við lok árs 2014 er ráðgert að þýðingavélin taki til allra 32 tungumála aðildarríkja samningsins um evrópsk einkaleyfi.

Nánar á heimasíðu EPO