Tilraunaverkefni varðandi flýtimeðferð einkaleyfisumsókna (PPH) milli Einkaleyfastofunnar og USPTO framlengt um óákveðinn tíma

30/11/2012

Þann 1. desember 2011 gerðu Einkaleyfastofan og bandaríska einkaleyfa- og vörumerkjastofan (USPTO) með sér samkomulag um tilraunaverkefni er varðar flýtimeðferð einkaleyfisumsókna, sem nefnt hefur verið „Patent Prosecution Highway“ eða PPH. Í því felst að íslenskir umsækjendur eiga þess kost að fá flýtimeðferð á umsókn sinni í Bandaríkjunum með vísan til samkomulagsins, hafi Einkaleyfastofan ákvarðað að ein eða fleiri kröfur umsóknarinnar uppfylli skilyrði um einkaleyfishæfi. Hið sama gildir hvað bandaríska umsækjendur varðar hér á landi. Tilraunaverkefnið var til eins árs, þ.e. til 30. nóvember 2012 en með möguleika á framlengingu.

Stofnanirnar hafa komist að samkomulagi um að framlengja verkefnið um óákveðinn tíma, ekki síst til þess að geta betur metið kosti samstarfsins og leggja styrkan grunn að frekara samstarfi.

Allar upplýsingar um flýtimeðferð er að finna undir „Einkaleyfi“ á www.els.is, en spurningum varðandi meðferðina má beina til Margrétar Hjálmarsdóttur, sviðsstjóra einkaleyfasviðs í síma 580-9400 eða með tölvupósti á netfangið postur@els.is.