WIPO

World Intellectual Property Organization, WIPO
 

Alþjóðahugverkastofnunin

World Intellectual Property Organization, WIPO

Alþjóðahugverkastofnunin (World Intellectual Property Organization, WIPO) er ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Hlutverk stofnunarinnar er að efla vernd hugverka og alþjóðlegt samstarf á því sviði.

Alþjóðahugverkastofnunin á rætur sínar að rekja til Parísarsamningsins frá 1883 um vernd hugverka á sviði iðnaðar og Bernarsamningsins frá 1886 um vernd bókmennta og listaverka. Fyrirrennari stofnunarinnar var United International Bureaux for the Protection of Intellectual Property- BIRPI). Alþjóðahugverkastofnunin tók til starfa í núverandi mynd árið 1967, með samningi sem var undirritaður í Stokkhólmi 14. júlí það ár. Samningurinn tók svo gildi árið 1970. Árið 1974 varð alþjóðahugverkastofnunin ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna.

BIRPI hafði aðeins yfirumsjón með fjórum alþjóðlegum samningum en í dag hefur alþjóðahugverkastofnunin umsjón með 25 alþjóðlegum samningum um hugverkaréttindi og skráningu hugverkaréttinda, jafnt á sviði uppfinninga og iðnhönnunar, bókmennta og lista. Á heimasíðu WIPO er að finna alla þá samninga sem stofnunin hefur umsjón með.

Alþjóðahugverkastofnunin og Ísland

Ísland er aðili að mörgum alþjóðasamningum á sviði hugverka og hefur löggjöf hér á landi verið aðlöguð þeim.

Árið 1962 gerðist Ísland t.d. aðili að Parísarsamningnum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, Bókuninni við Madridsamningin um alþjóðlega skráningu vörumerkja (The Protocol relating to the Madrid Agreement) árið 1997, samstarfssáttmálans um einkaleyfi (PCT- Patent Cooperation Treaty), árið 1995 og Genfar-samningsins um alþjóðlega skráningu hönnunar (The Geneva Act of the Hague Agreement concerning the International Registration of Industrial Designs), árið 2003. 

Þá hefur Ísland sem aðili að samningnum um alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) aðlagað lög hér á landi að ákvæðum samningsins um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS).

Þann 13. júní árið 1986 gerðist Ísland aðili að Stokkhólmssamningnum og þar með aðili að WIPO, sbr. auglýsing í C-deild Stjórnartíðinda.

Aðildarríki alþjóðahugverkastofnunarinnar eru 188 en stofnunin hefur aðsetur í Genf í Sviss.

Heimasíða WIPO (World Intellectual Property Organization)