WTO

World Trade Organization, WTO

Alþjóðaviðskiptastofnunin
World Trade Organization, WTO

Ísland er stofnaðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (World Trade Organization - WTO) sem myndar lagalegan og stofnanalegan ramma utan um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi. Grundvallarmarkmið stofnunarinnar er að auka frjálsræði og tryggja réttaröryggi í heimsviðskiptum og stuðla þar með að hagvexti og efnahagslegri þróun. Starfssvið WTO lýtur einkum að endurbættum GATT-samningi um vöruviðskipti (GATT 1994) en er þó ekki einskorðað við það enda eru alls 29 samningar í umsjá stofnunarinnar, þ.á m. samningar um landbúnað, þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi og lausn deilumála. WTO er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd þessara samninga, vera vettvangur fjölþjóðlegra samningaviðræðna á viðskiptasviðinu, leysa viðskiptadeilur sem upp kunna að koma milli samningsaðila og taka viðskiptastefnu þeirra til skoðunar með reglubundnum hætti.

Viðskiptaráðuneytið tekur þátt í samstarfi á vettvangi WTO vegna málaflokka ráðuneytisins.

TRIPS

Samningurinn um hugverkarétt í viðskiptum (Trade Related Aspects of Intellectual Property- TRIPs) varð til í kjölfar svokallaðra Úrúgvæ-viðræðna 1986-1994. Með samningnum voru reglur um hugverkaréttindi í fyrsta skipti færðar inn í alþjóðlegt viðskiptaumhverfi. Hvatinn að samningum var m.a. sá að hugverkaréttindi voru sífellt að verða mikilvægari í viðskiptum og reglur um vernd og framfylgni þessara réttinda voru breytilegar meðal ríkjanna.

Með TRIPs-samningnum var stefnt að því að brúa bilið milli hinna ólíku reglna sem giltu um vernd hugverkaréttinda og framfygni þeirra, og um leið að setja almennar alþjóðlegar reglur. Með samningnum var komið á fót lágmarksvernd sem aðildarríki eiga að veita hugverkaréttindum annarra ríkja.

Samningurinn felur í sér fjögur mikilvæg atriði; hvernig grundvallarreglum viðskiptaumhverfisins og ákvæðum alþjóðlegra samninga um hugverkarétt skuli beitt, hvernig veita eigi hugverkum viðeigandi vernd, hvernig aðildarríkin skulu framfylgja þessum réttindum í löndunum og hvernig leysa skuli úr deilumálum milli aðildarríkja.

Þau svið hugverkaréttinda sem falla undir TRIPs-samninginn eru m.a. vörumerki, einkaleyfi, hönnun og höfundaréttur.

Sem aðili að alþjóðaviðskiptastofnuninni hefur Ísland aðlagað lög hér á landi að ákvæðum TRIPs-samningsins. T.d. tekur ákvæði 132. gr. tollalaga nr. 88/2005 mið af þriðja hluta samningsins sem fjallar um fullnustu hugverkaréttar, en þar eru settar fram sérstakar kröfur í tengslum við landamæraeftirlit um að rétthafa vörumerkis eða höfundaréttar verði gert kleift að fara fram á stöðvun tollafgreiðslu á vöru sem hann hefur gildar ástæður til að ætla að hafi verið framleiddar í trássi við þessi réttindi. 

Heimasíða WTO (World Trade Organization)